Vatnajokull.com
Álfaheiði 1E
200 Kópavogur, Iceland
Tel: +(354) 564-6452

e-mail hofsjokull@vatnajokull.com


 

Eyjafjallajökull

Skein yfir landi sól á sumarvegi
og silfurbláan Eyjafjallatind
gullrauðum loga glæsti seint á deg

Eyjafjallajökull er eitt af þeim fjöllum á Íslandi sem minnir um margt á erlend eldfjöll

Eyjafjöll eru meðal hærri fjalla landsins (1666m) og nafngjafi þeirra er Vestmannaeyjar skammt undan ströndinni. Eyjafjallajökull er eins og ílöng keila í laginu sem toppurinn hefur verið skorin ofan af. Í stað toppsins er þar uppi ísfylltur stór gígur eða lítil askja, umkringd af hæstu tindum jökulsins, Hámundi og Goðasteini eða Guðnasteini ber hæst á gígnum sunnan- og norðvestanverðum. Menn eru ekki á eitt sáttir með nafngiftirnar. Jökulhettan er talin vera hin sjötta stærsta hérlendis 78 km2 og ekki lengur tengd Mýrdalsjökli á Fimmvörðuhálsi. Þaðan liggur góð gönguleið upp á hæstu bungu, einnig frá Seljavöllum, Mörk, hátindaleið úr Stakkholti og upp úr Langanesi hjá Grýtutindi og upp skerin í jöklinum norðvestanverðum. Það telst ekki lengur til tíðinda, að menn skreppi akandi á fjallajeppum og snjósleðum upp á hæstu bungur landsins en þessi var eitt sinn sigraður á fólksbíl (lada).

Eldgosaannáll Eyjafjalla er ekki langur, fremur en annarra eldfjalla landsins, enda voru forfeður okkar ekki á höttunum eftir nákvæmri staðsetningu gosa fjarri byggð, þótt þau yllu oft tjóni með flóðum og öskufalli. Skarðsannáll segir frá gosi 1612, sem sást víða á Norðurlandi og olli jökulhlaupi. Síðasta gos var á árunum 1821-23. Þá brauzt þriggja klukkustunda risaflóð undan skirðjökli að norðanverðu og fyllti Markarfljótsdalinn, þannig að hvergi sást í stein milli Fljótshliðar og Eyjafjalla. Jarðskjálfta hefur oft orðið vart á þessu svæði og núna skömmu fyrir aldamótin varð þar að auki vart við aukið gasútstreymi, sem fylgzt var vel með.

Í Steinsholti er Innstihaus við Steinsholtsjökul, annar tveggja skriðjökla, sem falla alveg niður á jafnsléttu í norðanverðum Fjöllunum. Hinn skriðjökullinn er Gígjökull, stundum kallaður Falljökull. Hluti af Innstahaus austanverðum sprakk fram í janúar 1967 og u.þ.b. 15 milljónir rúmmetra af grjóti féllu allt að 270 m niður á jökulinn og ollu gífurlegri flóðbylgju úr Steinsholtslóni. Hún bar með sér staksteinana, björg og hnullunga, niður að Markarfljótinu og rennsli þess mældist 21.000 m³/sek niðri við brú, þegar það stóð sem hæst.

Tvö flugslys nafa orðið á jöklinum. Bandarísk björgunarflugvél með fimm manns fórst vorið 1952. Þegar að var komið fannst bara eitt lík og ljóst var að fjórir höfðu lifað slysið af og haldið brott. Til þeirra spurðist ekki fyrr en að eitt lík í viðbót fannst 12 árum síðar og giftingahringur eins í viðbót. Gígjökullinn skilaði síðan hinum þremur sumarið 1966. Brot úr vélinni smáfærðust niður jökulinn og hafa verið fjarlægð smám saman. Bandarísk hjón voru á ferðinni í lítilli flugvél, sem fórst árið 1975 og þau bæði með.

Vefir
Eyjafjoll.is
Fyrstu ferðir á Eyjafjallajökul
Magnús Tumi