Teng efni:

Reykjafjörður

Ferðast á Vestfirði

Seinagengið
Heimildir

 

 

Drangajökull

Veðurspáin fyrir laugardag, D-dag, 14. apríl lofaði ekki góðu fyrir jöklaferð á Drangajökul. Boðið var uppá él og skýjað var í Veiðileysu. Það hafði fryst um nóttina og lofaði það betri færð. Ákveðið var að leggja í hann og vona að Drangajökull myndi hreinsa sig síðar um daginn enda veðurspár ónákvæmar fyrir hálendið. Við lögðum af stað rúmlega 10 til Djúpavíkur og ætluðum að fylla jeppana af bensíni en einn þurfti díselolíu.

Það er hægt að komast upp á heiðina á nokkrum stöðum, auðveldast er að fara upp hjá Veiðileysuhálsi og feta sig inn eftir Reykjarfirði og koma upp Búrfellshæðir en þær eru einsog kragi um Búrfell (697 m), eitt átján
fjalla með þessu nafni en það var kallað Matarfell af sjó. Þegar jeppamenn koma niður fara þeir norðan meginn Búrfells og niður Breiðadal. Við ákváðum að fara upp Breiðadal og fylgja förum sem voru þar fyrir. Þegar horft er á þessa leið á Íslandskortinu í Ráðhúsi Reykjavíkur er hún mjög brött og ótrúlegt að jeppar komist þar upp, en þetta er þekkt vélsleðaleið. Það þarf vel búna jeppa til að klifra og einnig þarf góða ökumenn. Á leiðinni var loftþrýstingur í dekkjunum minnkaður, fyrst í 5 pund og svo í 4, við það eykst flatarmál dekkjanna og þau ná meira gripi. Þetta er lykilatriði við að ferðast í snjó og mikil þekking er á því hér á landi en hugmyndin er komin frá Rússlandi. Allir jeppar voru búnir GPS-staðsetningartækjum, CB-talstöðvum,sem voru mikið notaðar til að miðla upplýsingum, og NTM-símum.

Ófeigsfjörður
Þessi mynd er tekin á Búrfellsbrúnum en við fórum upp Breiðadal sem er í botni
Reykjafjarðar. Þarna sést ofan í Ófeigsfjörð og í Eyvindarfjörð. Ingólfsfjörður sést
ekki en allt eru þetta landnámsmenn sem firðir þessir eru kenndir við og voru þeir
bræður, synir Herröðar hvítaskýs. Hér er sagan um allt á láglendi en á heiðinni sunnan Drangajökuls eru Hraun og fjöldi vatna og flest nafnlaus enda áttu forfeður okkar
lítið erindi um slóðir þar sem ekki voru snapir fyrir sauðfé.

Þegar upp var komið úr Breiðadal yfir Búrfellsbrúnir í 400 metra hæð blasti slétt hvít breiða við, svo langt sem augað eygði. Rúmir 25 km. eru þaðan til Drangajökuls og kallast svæðið Hraun. Sólin var farin að gægjast í gegnum skýin og skyggni gott. Þarna er mjög mikið af vötnum en þau sáust ekki því þau voru frosin og snjór yfir. Þetta svæði er paradís leiðsögumannsins því mjög fá örnefni eru þarna enda áttu forfeður okkar lítið erindi þangað með sauðfé. Helstu vötn heita Vatnalautavatn, nyrðra og syðra en við fórum vestan meginn við þau. Rauðanúpsvatn er á vinstri hönd en það fór lítið fyrir því. Austan Vatnalauta er Hvalá sem kemur úr nokkrum vötnum á Ófeigsfjarðarheiði og rennur í gljúfri og djúpum farveg ofan af hálendinu. Þegar hún sameinast Rjúkanda verður hún eitt mesta vatnsfall á Vestfjörðum. Nokkuð hefur verið rætt um að virka hana.
Gömul þjóðleið, Ófeigsfjarðarheiði, liggur frá Ófeigsfirði að Hraundal við Djúp og var nokkuð fjölfarin fyrrum. Heiðin er grýtt og gróðurlítil og snjór langt fram á sumrin.
Önnur heiði, Trékyllisheiði liggur frá Kjós í Reykjarfirði að Selárdal í Steingrímsfirði. Vörðuð leið fyrir hesta og gangandi.

Ég, Hornfirðingurinn, sem er alinn upp við rætur Vatnajökuls, stærsta jökuls Evrópu, átti von á að Drangajökull myndi gnæfa yfir sléttuna en hann var hógvær og faldi sig vel í snjónum enda 52 sinnum minni. Þegar við komum að rótum hans var ég í hálfgerðum vafa um hvort þetta væri jökullin eða hæð á sléttunni, en veðurfarið hafði breyst mikið, það var kominn meiri kuldi, rúmar 6 gráður í mínus, og meiri vindur. Þarna var skafrenningur og minnti mig á myndskeið frá íslenskum pólförum á leið á norður- eða suðurskautið. Ég komst í pólsfíling þarna.
Nýjustu tölur frá Hagstofunni mæla Drangajökul 160 ferkílómetra og hæsti punktur er í 925 metrum í Jökulbungu. Eini jökulinn á Íslandi sem ekki nær 1.000 metrum en á móti kemur að hann er fyrir norðan heimskautsbaug. Fyrir u.þ.b. 10 árum var jökullinn tæpir 200 ferkílómetrar svo mikið hefur hann hopað. Nokkrir skriðjöklar ganga úr honum t.d. í Kaldalón í Djúpinu, Leirufirði í Jökulfjörðum og nokkra firði á Ströndum, Reykjafjörð nyrðri og Bjarnafjörð nyrðri. Í Reykjarfirði hefur jökullinn sem kallaður var Jökulsporður, verið árlega mældur frá 1939 og hefur hann hopað um nær 2.500 m skv. mælingum fram undir þetta en er nú farinn að ganga fram aftur. Í Leirufirði eru ummerki eftir fyrstu jöklarannsóknir á skriðjöklum hér á landi eftir Þorvald Thoroddsen 1886-87. Þegar eitthundrað ár voru liðin frá mælingu hans, segir Sólberg Jónsson að jökulinn hafi hopað um 2.314 metra á þessu tímabili (Jökull 88, s.92)
Það er auðvelt að keyra á hvelfdum jöklinum enda engar sprungur á þessum árstíma. Þegar komið er á efsta punkt sést niður í Ísafjarðardjúp, Jökulfirði, Hornstrandafriðland, einn elsta hluta Íslands, 16 til 17 milljóna ára, yfir Strandir og víðar. Hægt er að ganga á klettaborgirnar sem rísa úr jöklinum, Hljóðabungu og Reyðarbungu, austar er Hrolleifsborg (851 m) en þaðan er útsýni talið best. Jökulskerin (núnatökin) Hljóðabunga og Hrolleifsborg eru alþekkt úr Áföngum Jóns Helgasonar.
Á fyrri tímum voru alfaraleiðir yfir Drangajökul, allt fram undir 1920. Frægar eru ferðir bænda við Djúp sem sóttu rekavið á Strandir og drógu á hestum yfir jökul. Meginhluti timburs í gömlum húsum við Djúp er rekaviður af Ströndum. Viðurinn var fluttur á hestum um Drangajökul að Djúpi. Þetta hét að "fara drögur", því framhluti trjánna var bundinn á klakk, en afturhlutinn dróst. Nú draga menn bilaða jeppa af jökli!

Í Morgunblaðinu 29. september 2001 er sagt frá fjórum kindum sem fundust í botni Skjaldafannardals norðanverðum upp undir Drangajökli. Óvíða er vetraríki meira og snjóþyngsli en við norðanvert Ísafjarðardjúp. Nöfnin Snæfjallaströnd, Kaldalón og Skjaldafönn tala þar sínu máli en síðasti vetur var þó með eindæmum snjóléttur og veðurvægur. Hefur það trúlega bjargað kindunum fjórum því venjulega fennir fé eða brynjar í bleytuhríðum svo þær valda sér ekki og frjósa niður og tófan sér um sögulokin. Skjaldafannardalur er við SV enda Drangajökuls og Laugarholt er norðan Langadalsstrandar.

Krúsað á Hrauni
Ófeigsfjarðarheiði liggur suður fyrir Drangajökul milli Ófeigsfjarðar og Langadals-
sandar v/Ísafjarðadjúp. Víðáttumikil og víðast 300-400 m. Flatlend og fátt um
kennileiti. Vötn allmörg. Hún er grýtt og gróðurlítil og snjór langt fram á sumar.


Kálfatindar og Glissa.
Trékyllisvík og Ingólfsfjörður eru framundan. Glissa er til hægri en sundur-
grafin megineldstöð liggur á milli Reykjafjarðar og Ófeigsfjarðar, þetta er því
hluti af henni.


Krúsað á Ófeigsfjarðarheiði.
Drangajökull er bungan framundan. Mörg vötn eru á heiðinni og stærsta heitir
Vatnalautir, sem skiptist í nyrðra og syðra. Loftnetið ber í jökulinn.
GPS punktur: 65.58.374 og 21.53.450

Við rætur Drangajökuls
Hann lætur ekki mikið yfir sér Drangajökull, fellur vel í umhverfið, einskonar
felujökull. Hins vegar breyttist veðurfar mikið þarna og meiri kuldi og vind-
styrkur. Skafrenningur er þarna og ég fékk pólartilfinningu þarna.

Ég var mjög hrifinn af tveim tindum, eða hyrnum sem stóðu upp úr sléttunni; Kálfatindar (646 m) og Nónhnjúkum sem fylgdu okkur alla leið. Blágrýti er aðalbergtegundin og sundurgrafin megineldstöð liggur á milli Reykjarfjarðar og Ófeigsfjarðar, trúlegar eru þetta leifar úr henni.

Ekki var mikil umferð á Drangajökli, og mættum við einum jeppa með marga bensínbrúsa aftanáliggjandi. Lögreglan á Ísafirði var með umferðareftirlit á páskadag enda veður mjög gott. Þeir stöðvuðu um 60 bíla á jöklinum og fylgdust sérstaklega með ölvunarakstri.
Enginn var grunaður um ölvun við akstur og voru langflestir með beltin
spennt. Þótti lögreglumönnum það þó skjóta skökku við að margir
vélsleðamenn létu það undir höfuð leggjast að setja upp öryggishjálm. Um
helgar í apríl og maí geta verið á milli 200 og 300 manns á ferð í einu
um jökulinn og nágrenni, flestir vélsleðamenn. Lögreglan hyggst halda
áfram eftirlitsstarfi sínu á jöklinum.
Þetta er því mikill sigur fyrir jeppamenn en flestir eru það vel þroskaðir að þeir vita af því að öll skilningavit verða að vera klár í hálendisferðum.

Í hlíðum Drangajökuls
Einn jeppana í ferðinni bilaði þarna, olíustífla en vatn fraus í olíusíu. Bíllin rauk í
gang daginn eftir. Glæsilegir er Nónhnúkar og Kálfatindar. Flákinn þarna er kallaður hraun.
GPS punktur hér er: 66.05.280 og 22.05.061

Viðgerð á Drangajökli
Sigþór og Dóri Meik að huga að olíusíunni. Þetta var eini Diesel bíllin í ferðinni
og þeir eru viðkvæmari fyrir olíuvandamálum. Kálfatindar sjást í bakgrunni.

Sögumaður á Drangajökli
Hér stendur sögumaður á 5. stærsta jökli landsins, 160 km2. Gunni Stimpill að
koma af toppnum úr 925 metra hæð.
Flott hyrna - Kálfatindar
Ég var mjög hrifinn af þessari hyrnu, Kálfatindar (646 m) og falla þeir hvor í annan. Þeir sást víða að á Ófeigsfjarðarheiði og mun tignarlegri en frá "jörðu" séð. Þetta er rakið dæmi um glæsilegt mannviri gert af náttúrunnar höndum sem fær ekki notið sín nema frá öðru sjónarhorni. Þetta eru meðaltindar frá jafnsléttu séð. Kálfar hét vættur eða tröllkarl sem bjó í Kálfatindum. Í Krossanesfjalli er Kálfssæti, klettahögg eins og sæti í laginu. Þar átti hann að hafa hvílt sig þegar hann kom af sjónum.
Húsárdalur er á miðri mynd og upp af honum byrjar Ófeigsfjarðarheiði. Ófeigs-
fjörður er vinstra meginn við nesið en Ingólfsfjörður hærga meginn.

Heimildir:
Ferðafélag Íslands, Árbók 1994, Ystu strandir norðan Djúps.
Ferðafélag Íslands, Árbók 2000, Í strandabyggðum norðanlads og vestan

<<ferðasaga heimleið>>